20 Apríl 2020 10:23

Almenningur er að gera vel.   Kærar þakkir fyrir það.   Tölur um fjölda  smitaðra af koronaveirunni fara lækkandi um land allt og það er vegna þess að fólk hefur virt samkomubann og sinnt smitvörnum, s.s. handþvotti og sprittun vel.   Verum meðvituð um að þetta er árangur sem næst með því að leggja mikið á sig. Það er til mikils að vinna að slaka ekki á og það er líka auðvelt að verða kærulaus.   Förum ekki þangað, við erum nefnilega öll almannavarnir og árangurinn er eftir því hvað hver og einn sem einstaklingur leggur til verksins.

27 voru í liðinni viku kærðir fyrir að aka of hratt á Suðurlandi.   Einn þeirra mældist á 161 km/klst hraða á Suðurlandsvegi við Laufskálavörðu og hlýtur viðeigandi sekt og sviptingu að launum.   Annar íslenskur ökumaður mældist á 142 km/klst hraða á Suðurlandsvegi við Dýralæk.   Ljóst er að lítið má út af bregða þegar svo hratt er ekið.

Þrjú mál komu upp þar sem ökumaður bifreiðar er grunaður um að aka undir áhrifum áfengis.   Í einu þeirra, þann 15. apríl, stálu ungir drengir bíl á meðferðarheimili í Rangárvallasýslu og fundust þeir og bíllinn í Þykkvabæ skömmu síðar. Einn þeirra hafði ógnað starfsfólki meðferðarheimilisins með dúkahníf til að komast yfir lykla að bílnum. Þessir sömu drengir voru stöðvaðir á stolnu ökutæki fyrr í vetur við Selfoss en þá var beitt naglamottu til stöðvunarinnar eftir að þeir höfðu virt að vettugi öll stöðvunarmerki lögreglu.

Einn ökumaður sem lögregla hafði afskipti af þann 18. apríl er grunaður um að hafa ekið bifreið sinni undir áhrifum fíkniefna Sá var stöðvaður á Suðurlandsvegi vestan við Selfoss og er jafnframt grunaður um vörslu fíkniefna.

2 eru kærðir fyrir að nota farsíma við akstur bifreiðar sinnar án þess að vera með handfrjálsan búnað til slíks.

7 umferðaraóhöpp voru tilkynnt til lögreglu í vikunni sem leið. Í einu þeirra kvartaði ökumaður undan svima og fékk skoðun og aðhlynningu í sjúkrabíl vegna þess. Önnur eru skv. tilkynningum án meiðsla.