31 Ágúst 2020 13:57

S.l. laugardagskvöld barst tilkynning um að smárúta hafi farið út af vegi á Skeiðarársandi.   Upplýsingar af vettvangi voru misvísandi í fyrstu hvað fjölda slasaðra og stig meiðsla varðar en það er algengt svona í upphafi máls. Hinsvegar varð fljótlega ljóst að a.m.k. 5 væru slasaðir og að um börn væri að ræða og því var hópslysaáætlun fyrir Suðurland virkjuð.     Fljótlega fór að komast skýrari mynd á málið og voru þá afturkallaðar bjargir fjærst vettvangi.   Um var að ræða unga drengi á leið með ökumanni til síns heima á Höfn en þeir höfðu verið í íþróttakeppni á Hvolsvelli. Þeir voru allir, ásamt ökumanni, fluttir með þyrlum LHG til aðhlynningar á sjúkrahúsi í Reykjavík. Ekki liggja fyrir upplýsingar um meiðsl þeirra að svo stöddu en flest munu þau flokkast minniháttar.

Ökumaður bifhjóls á Heklubraut féll af hjóli sínu og slasaðist á brjóstkassa þann 29. ágúst.  Hann var aðstoðaður af fulltrúum hálendisgæslu Landsbjargar og fluttur til móts við sjúkrabifreið.

Göngumaður á leið sinni um Morinsheiði slasaðist þann 26. ágúst.  Hann var fluttur með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík.

4 ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna í liðinni viku. Aðrir tveir eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum ölvaðir.

4 ökumenn voru kærðir fyrir að aka sviptir ökurétti í liðinni viku.   Aðrir tveir reyndust aldrei hafa öðlast ökuréttindi og voru mál þeirra afgreidd með tilkynningu til barnaverndar auk viðeigandi sekta.

62 voru stöðvaðir fyrir að aka of hratt í umdæminu.   Af þeim eru 7 sem eru að aka innanbæjar og þar með á 50 km/klst vegi og 6 eru á meira en 130 km/klst hraða á 90 km/klst vegi.

Skráningarmerki voru tekin af tveimur ökutækjum sem reyndust ótryggð í umferðinni og einu sem ekki hafði verið fært til endurskoðunar frá árinu 2018.