20 Júní 2022 14:43

5 ökumenn voru í liðinni viku kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna.  31 ökumaður var kærður fyrir að aka of hratt, 5 þeirra innan þéttbýlismarka í umdæminu en hinir á þjóðvegum með 90 km/klst hámarkshraða.   Af þeim eru 7 ökumenn mældir á 130 km/klst hraða eða meiri, allt upp í 149 km/klst en sú tala skilar mönnum á þann stað að sæta sviptingu ökuréttar í 1 mánuð, 3 punktum í ökuferilsskrá og 210 þúsund króna sekt.

3 þeirra fjölmörgu ökumanna sem voru stöðvaðir í umdæminu í vikunni reyndust undir áhrifum áfengis.   Meðferð mála þeirra bíður niðurstöðu rannsókna blóðsýna en, sem kunnugt er, ræður áfengismagn í blóði fjárhæð sektar og lengd sviptingar ökuréttar.

Banaslys varð í umferðinni þann 16. júní á þjóðvegi 1, vestan Kúðafljóts, þegar fólksbifreið, sem ekið var til austurs og í voru tveir erlendir ferðamenn, lenti framan á sendibifreið úr gagnstæðri átt þar sem ökumaður var einn í bíl.    Ökumaður fólksbílsins, karlmaður fæddur 1957,  lést og farþeginn slasaðist mikið.  Ökumaður sendibílsins er nær ómeiddur.   Tildrög slyssins eru í rannsókn.

Ökumaður á hlaupahjóli slasaðist á höfði þegar hann féll af því í Vík þann 19. júní.  Hann fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

11 önnur umferðaróhöpp/slys voru tilkynnt til lögreglu í vikunni en meiðsli aðila í þeim ekki alvarleg.

4 slys önnur voru tilkynnt til lögreglu í vikunni.   Tvö þeirra voru þann 14. júní,  annarsvegar slasaðist ferðamaður á vélsleða á Skálafellsjökli og var fluttur á sjúkrahús og hins vegar slasaðist göngumaður á Sólheimajökli þegar hann snéri sig á fæti.  Þann 16. júní slasaðist maður á höfði þegar hann féll úr tröppum rútu á Þingvöllum.   Fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.    Ferðamaður slasaðist á fæti í ferð þann 18. júní á Skaftafellsjökli en kom sér, með aðstoð samferðamanna undir læknishendur.

Björgunarsveitir sóttu 12 manna hóp göngufólks auk tveggja fararstjóra á Vatnajökul aðfaranótt 17. júní s.l.   Vandkvæði höfðu komið upp með staðsetningabúnað hópsins þegar lagt var af stað niður af Hvannadalshnjúk  og  var því kallað eftir aðstoð til að öryggi væri tryggt.   Aðgerðin reyndist mun umfangsmeiri en í upphafi leit út fyrir enda versnaði veður og skyggni á jöklinum lítið.   171 björgunarsveitarmaður er skráður í aðgerðina skv. gagnagrunni Landsbjargar.  Vel gert hjá þeim að vanda.    Fólkinu komið í öruggar hendur í fjöldahjálparstöð og  þaðan í umsjá ferðaskipuleggjenda.

Amk 2 ökutæki urðu fyrir tjóni þegar þau fuku í hvassviðri sem gekk yfir þann 18. júní s.l.  Bæði atvikin áttu sér stað í Skaftafellssýslu.  Þar varð einnig tjón á fjárrétt þegar járnplötur í rekkverki losnuðu og fuku af stað.