26 Apríl 2021 11:28
Þann 21. apríl varð árekstur með „vespu“ og bifreið á gatnamótum Sigtúns og Engjavegar á Selfossi. Sjúkrabifreið var kölluð til en eftir skoðun sjúkraflutningsmanna á ökumanni vespunnar var ekki talin þörf á að flytja viðkomandi á sjúkrahús. Ökumaður vespunnar kvaðst hafa ekið á vinstri akrein Sigtúns inn á Engjaveg og kannaðist við að hafa verið að huga að því hvað tímanum liði með því að líta á klukkuna í síma sínum þegar áreksturinn varð.
Þann 22. apríl slasaðist sjómaður um borð í bát í Hornafjarðarhöfn þegar loka á millidekki skelltist á höfuð hans. Hann fluttur til aðhlynningar á sjúkrahús og er ekki vitað nánar um meiðsl hans.
Þann 23. apríl varð umferðarslys á gatnamótum Skeiða og Hrunamannavegar við Suðurlandsveg þegar bifreið sem ekið var suður að gatnamótunum lenti á hlið bifreiðar sem ekið var vestur Suðurlandsveg. Ökumenn beggja bíla fluttir á HSU til skoðunar en eru ekki taldir alvarlega slasaðir.
Bóndi í Rangárþingi brotnaði á handlegg þann 24. apríl þegar hann klemmdist á milli stafs og hurðar sem hann hélt við þar sem verið var að gefa á fóðurgang með dráttarvél. Dráttarvélin rakst í hurðina með fyrrgreindum afleiðingum.
Þann 23. apríl varð vörubifreið fyrir allstóru grjóti frá annarri slíkri þegar bifreiðarnar mættust á Suðurlandsvegi við Rauðalæk. Töluvert tjón er á bifreiðinni sem fyrir grjótinu varð en það braut sér leið inn fyrir „grill“ og olli þar skemmdum á búnaði. Málið er í rannsókn.
Eldur kom upp í og við gasknúinn hitara í sumarbústað í uppsveitum Árnessýslu þann 22. apríl. Reyndist minniháttar og slökkt af nærstöddum í bústaðnum þannig að ekki reyndist þörf á aðkomu Brunavarna Árnessýslu.
Grípa þurfti til sérstakrar umferðarstjórnar á Selfossi þann 20. apríl þegar biðröð bifreiða sem fluttu fólk í Covid sýnatöku hringaði sig um miðbæinn með þeim afleiðingum að umferð stöðvaðist víðsvegar um bæinn. Greiðlega gekk að leysa úr hnútnum og almennt allir rólegir yfir stöðunni.
37 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku. Ungur ökumaður á Suðurstrandavegi horfir á eftir ökuréttindum sínum eftir að hafa mælst á 154 km/klst hraða þar en leyfður hámarkshraði er 90 km/klst. Viðkomandi er á bráðabirgðaskírteini og þarf því að sækja sérstakt námskeið áður en hann fær útgefin réttindin að nýju.
2 ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um að þeir væru ölvaðir við akstur bifreiða sinna og einn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.