17 Maí 2016 16:15

Að þessu sinni kemur hér yfirlit tveggja vikna yfir þau helstu verkefni sem borist hafa inn á borð lögreglunnar á Suðurlandi.   Af nógu er að taka en á tímabilinu frá og með 2. maí til og með 15. maí eru bókuð 621 mál í dagbók lögreglu og í þeim eru samtals 734 málsliðir.

Að venju eru umferðarmálin lang fyrirferðarmest en 144 óku of hratt á þessu tímabili, flestir á Suðurlandsveginum og álagðar sektir vegna þessa nema um 6,5 milljónum.   af því eru 4,1 milljón álagðar sektir vegna brota erlendra einstaklinga sem ekki hafa íslenska kennitölu.    Flestir greiða sektina á vettvangi eða innan 30 daga en þá er gefinn 25 % afsláttur frá álagningunni.

9 eru grunaðir um ölvun við akstur og 8 eru grunaðir um að aka undir áhrifum ávana og/eða fíkniefna.

12 ökutæki reyndust vera í umferðinni án þess að vera með lögboðnar tryggingar og voru skráningarnúmer tekin af þeim á staðnum.

11 eru kærðir fyrir að nota síma við akstur án þess að nýta sér handfrjálsan búnað og má gera ráð fyrir að lögregla víðsvegar um land muni í auknum mæli beina athygli sinni að þessháttar brotum.

Þá eru 3 kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti bifreiðar.

Nú ættu allir að vera komnir á sumardekkin svona svo því sé haldið til haga og má búast við því að lögregla fari að sekta vegna notkunar nagladekkja héðan af.

Þann 5. maí s.l. lenti lítil rúta út af Suðurlandsvegi austan Víkur. Hún fór á hjólunum yfir lækjarfarveg og lenti í sandbakka handan hans og stöðvaðist þar.  10 ferðamenn og ökumaður, öll frá Úkrainu, voru í rútunni.  8 þeirra hlutu meiðsli og 5 voru fluttir til frekari aðhlynningar, flestir með áverka í andliti af því að skella í sætisbaki á næstu sætaröð fyrir framan sæti þeirra.  Allt tiltækt björgunarlið í Vík og á Kirkjubæjarklaustri var virkjað auk sjúkraflutninga og lögreglu og gengu aðgerðir vel fyrir sig en umtalsvert álag myndast við þessar aðstæður þó áverkar séu ekki miklir.  Slysið var tilkynnt kl. 17:20 og kl. 18:03 höfðu allir aðilar verið fluttir í aðstöðu RkÍ í Vík þar sem betur var hlúð að þeim og hluti fluttur á Heilsugæslu og síðan áfram til Reykjavíkur.

Þann 7. maí varð það slys að hosa á kælivatnskerfi torfærubifreiðar gaf sig og sjóðandi vatn sprautaðist yfir fætur starfsmanns sem var að vinna við bílinn á torfærukeppni á Hellu. Hann mun sjálfur hafa leitað læknis á Hellu.

Þann 8. maí öklabrotnaði erlendur ferðamaður á göngu í Reykjadal. Sjúkraflutningamenn og björgnunarsveitarmenn fluttu konuna á HSU til skoðunar og áfram til frekari aðhlynningar á sjúkrahúsi í Reykjavík.

Þann 11. maí slasaðist maður á hendi þar sem hann var við byggingarvinnu í Austur-Skaftafellssýslu. Hann mun hafa farið með höndina í hjólsög og tekið framan af litla fingri og skorið baugfingur, löngutöng og vísifingur mjög illa.   Hann var fluttur á sjúkrahús á Höfn og eftir aðhlynningu þar til frekari meðferðar með flugvél til Reykjavíkur.