18 Nóvember 2019 11:15

Enn eru það hraðakstursmálin sem eru flest í hópi umferðarlagabrota en 50 slík komu upp á borð hjá lögreglu á Suðurlandi í liðinni viku.   49 þeirra voru á 90 km/klst vegi en einn var kærður fyrir að aka með 81 km/klst hraða innanbæjar á Selfossi.   Ökumaður, sem ók um Mýrdalssand þann 13. s.l. ók bifreið sinni með 150 km/klst hraða og gekkst undir viðurlög vegna brots síns í samræmi við það. Annar, á svipuðum slóðum, var kærður fyrir að aka of hratt miðað við aðstæður en sá brunaði framhjá lögreglubifreið þar sem hún stóð í vegkanti með forgangsljósin kveikt eftir að lögreglumenn höfðu stöðvað fólksflutningabifreið sem þar far á ferð. Þriðji ökumaðurinn sem hér er tiltekinn dró kerru á eftir bíl sínum en kerran var ljóslaus, óskráð og án skermunar fyrir hjól.

11 ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna í liðinni viku. Einn þessara ökumanna var með tvö börn laus í bílnum og fékk sekt fyrir þau brot einnig.   Auk þessa var einn kærður fyrir að nota ekki öryggisbelti.   Tveir ökumenn sem lögregla hafði afskipti af reyndust sviptir ökurétti.  Skráningarnúmer bifreiðar annars þeirra voru fjarlægð þar sem viðkomandi ökutæki var langt fram yfir frest til að verða fært til aðalskoðunar. Þá voru skráningarnúmer tveggja bifreiða fjarlægð þar sem þær reyndust ótryggðar í umferðinni.

3 ökumenn voru kærðir vegna brota á reglum um að nota ökumannskort/skífu réttilega og fá þeir sína sekt fyrir brotið auk þess sem atvinnurekandi þeirra er einnig sektaður.

11 umferðaróhöpp eru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku. Ekki er að sjá að alvarleg meiðsl hafi orðið í þeim.

Ferðamaður á ferð um Reynisfjöru þann 11. nóvember s.l. slasaðist á öxl þegar alda hreif hann með sér og velti um í fjörunni. Um það mál og önnur svipuð hefur verið fjallað áður og er ekki bætt við það hér.   Ákveðið hefur verið að Dómsmálaráðuneytið, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti ásamt Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti sameinist um gerð hættumats á þessum slóðum og mun að líkindum koma til þess að svæðinu verði lokað tímabundið skapist veðurfarslegar aðstæður sem, samkvæmt slíku hættumati, kalli á slíka lokun.

Afskipti voru höfð af 6 rjúpaveiðimönnum í tveimur aðskildum málum.   Reyndust með leyfi og réttindamál sin í lagi.