9 Desember 2019 11:51

3 ökumenn sem lögreglan hafði afskipti af í liðinni viku eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum undir áhrifum fíkniefna. Tveir þeirra reyndust einnig sviptir ökurétti vegna fyrri brota en sá þriðji hefur aldrei öðlast ökuréttindi.   Einn þessara einstaklinga kom akandi til skýrslugjafar að lögreglustöð vegna annars máls og vakti ástand hans grunsemdir lögreglumanna um að hann væri ekki á ástandi til aksturs.   Þrír aðrir ökumenn eru grunaðir um ölvun við akstur bifreiða sinna. Einn þeirra ók bifreið sinni ítrekað útaf vegi og inná aftur á Suðurlandsvegi í Rangárvallasýslu án þess þó að valda slysi.   Vegfarendur tilkynntu um aksturslag hans.

Einn var kærður fyrir að nota ekki öryggisbelti við akstur bifreiðar sinnar.   Hann reyndist vera að aka bifreið sinni sviptur ökurétti vegna eldra brots.

13 eru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu. Af þeim voru 12 í Skaftafellssýslunum og sá sem hraðast ók mældist á 134 km/klst hraða. 10 þessir ökumanna eru erlendir ferðamenn en hinir íslenskir. Rúmlega 3800 manns hafa nú verið kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu á yfirstandandi ári.

13 umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku. Í tveimur þeirra urðu meiðsl á fólki, Annarsvegar þann 4 desember en þá bilaði stýrisbúnaður bifreiðar á vesturleið í Hveradalabrekku með þeim afleiðingum að hún lenti út í vegriði. Ökumaður annarrar bifreiðar stöðvaði bifreið sína fyrir framan þessa bifreið og fór til aðstoðar við ökumann hennar. Ökumaður þriðju bifreiðarinnar sem þarna kemur við sögu dró úr hraða sinnar bifreiðar þegar hann hugðist aka framhjá en þá vildi ekki betur til en svo að fjórða ökutækið, vörubifreið með vagni, náði ekki að draga nægjanlega úr ferð og lenti aftan á henni og kastaði á bifreið þess sem í upphafi hugðist aðstoða þann ólánssama í vegriðinu. Ökumaður bifreiðarinnar sem vörubifreiðin lenti á var fluttur til aðhlynningar á sjúkrahús í Reykjavík.  Aðrir sluppu ómeiddir, þ.m.t. fjöldi hrossa sem voru á vagni vörubifreiðarinnar. Snjókoma var á vettvangi og snjóþekja með tilheyrandi hálku á veginum.

Föstudaginn 6. desember varð barn undir afturhjóli pallbifreiðar sem ekið var afturábak á bifreiðastæði við sveitabæ í Árnessýslu.   Það var flutt á sjúkrahús í Reykjavík en áverkar þess reyndust minniháttar og barnið sent heim að skoðun lokinni.

Skráningarnúmer fjögurra bifreða voru fjarlægð þar sem þær reyndust ótryggðar í umferðinni.