1 Nóvember 2021 12:00

Aðfaranótt 31. október s.l. kom upp eldur í ruslaskýli við Tryggvagötu á Selfossi.  Tilkynnt var um eldinn kl. 05:37 af íbúa í nágrenninu og var þá þegar orðinn mikill eldur.   Slökkvilið kom á staðinn og slökkti eldinn.   Telja má fullvíst að kveik hafi verið í skýlinu eða í rusli inni í því og óskar lögreglan upplýsinga frá þeim sem telja sig búa yfir einhverju því sem stuðlað getur að því að málið upplýsist.   Mildi þykir að eldurinn náði ekki að breiða úr sér í nærliggjandi hús.

34 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku.   Einn þeirra var mældur á 93 km/klst hraða á Hafnarbraut við tjaldsvæðið á Höfn en þar er hámarkshraði 50 km/klst.  Sektin 70.000 krónur við slíku broti.  Annar ökumaður var kærður fyrir að aka of hratt í gegn um þjóðgarðinn á Þingvöllum þar sem hámarkshraðinn er einnig 50 km/klst  40.000 króna sekt við því broti.   Annar ökumaður þar mældist á 91 km/klst hraða.  Neitar sök og málið á leið til ákærusviðs til meðferðar.

Einn ökumaður var kærður fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiðar sinnar á Austurvegi á Selfossi.  Sem fyrr er sektin við slíku broti 40.000 krónur.

Skráningarmerki voru tekin af 3 bifreiðum sem reyndust, við uppflettingu, ótryggðar í umferðinni.

4 ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um að þeir væru undir áhrifum fíkniefna við akstur bifreiða sinna.

Kona  á fimmtugsaldri slasaðist þegar hún féll af hestbaki inni í reiðskemmu í Landsveit og lenti á vegg.  Hún flutt til aðhlynningar á heilbrigðisstofnun.

Karlmaður um áttrætt slasaðist í hesthúsi í Árnessýslu þann 28. október þegar hestur hljóp á hann og felldi þannig að hann fékk áverka á höfði og missti meðvitund.   Kom fljótlega til meðvitundar aftur en fluttur til aðhlynningar á sjúkrastofnun.

Þann 31. október var tilkynnt um mann í vandræðum í sjónum út af Höfn í Hornafirði.   Í ljós kom að þar var um að ræða mann sem dregin var áfram af svifvæng og hann þar í grandaleysi við þær æfingar.    Rætt við hann þegar hann kom að landi um tilkynninguna og áhyggjur fólks.

Kona er talin axlarbrotin eftir að „buggy“ bíll sem hún var farþegi í valt við Landeyjarhafnarveg þann 30. október.  Um er að ræða erlendan ferðamann sem var hvorki í öryggisbelti eða með hjálm á höfði.  Ökumaður bílsins mun hafa sloppið lítið eða ómeiddur.

Karlmaður var fluttur slasaður á sjúkrahús þann 30. október, með höfuðáverka, eftir að hann missti stjórn á fjórhjóli sínu í Rangárþingi eystra og velti því um girðingu sem hjólið lenti á.   Hafði kallað sjálfur eftir aðstoð aðstandenda en þeir síðan hringt eftir hjálparliði þegar þau komu á vettvang og fóru að huga að karli.