11 Nóvember 2019 18:41

Ökumanni sem ók bifreið sinni á 163 km/klst hraða um Suðurlandsveg við Dalsel þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst þann 7. nóvember s.l. lauk máli sínu með sektargreiðslu upp á 230 þúsund krónur ásamt viðeigandi sviptingu ökuréttar.   Tveimur dögum áður hafði annar ferðamaður orðið uppvís af því að aka bifreið sinni með 142 km/klst hraða um Suðurlandsveg við Stórólfshvol en einnig þar er leyfður hámarkshraði 90 km/klst.   Sektargreiðsla hans var hljóðaði upp á 420 þúsund krónur auk 18 mánaða sviptingar en þar inn í þá ákvörðun spilar sú staðreynd að áfengismagn í blóði hans mældist 1,57 prómill. Annar ferðamaður mældist aka á sama hraða rétt vestan Flateyjar á Mýrum í A-Skaft en sá reyndist hinsvegar ófullur.   Við verðum jú að líta á björtu hliðarnar. 36 aðrir eru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku.

Tvö slys, önnur en umferðarslys, voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku. Í öðru tilfellinu féll göngumaður á hálku í Skaftafelli og er mögulega ökklabrotinn. Í hinu tilfellinu datt maður í búningsklefa gufubaðs í Árnessýslu og hruflaðist víðsvegar um líkamann vegna þessa.   Efni til að minna á hálkuvarnir utandyra þegar komið er fram í vetrarbyrjun og svo að gæta að sér að sitja ekki of lengi í gufunni í einu.

17 umferðaróhöpp eru skráð í umdæminu í liðinni viku.   Fest án meiðsla eða að meiðsl hafa reynst minniháttar. Í flestum tilfellum spilar vetrarfærð inn í sem hluti af orsök óhappanna en ljóst er að ökuhraði skiptir miklu máli þegar óhöpp verða.     Þann 4. nóvember varð árekstur með tveimur jepplingum sem komu úr gagnstæðum áttum á Suðurlandsvegi við Sléttaland. Ökumenn og farþegar beggja bifreiða voru flutt á sjúkrahús í Reykjavík með þyrlu LHG.   Öll eru þau eitthvað meidd en þó ekki lífshættulega.   Krapi var á vegi og virðist önnur bifreiðin hafa flotið upp og farið yfir á öfugan vegarhelming.   Degi síðar, þann 5. nóvember varð árekstur með jeppling og vöruflutningabifreið á þjóðvegi 1, skammt frá Steinavötnum.   Jepplingurinn virðist hafa flotið upp í krapi og lent framan á vörubifreiðinni með þeim afleiðingum að framhjól rifnaði undan vörubifreiðinni auk þess sem jepplingurinn gjöreyðilagðist.   Bæði ökumaður og farþegi jepplingsins voru fluttir með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík ásamt ökumanni vörubifreiðarinnar en meiðsl þeirra reyndust hinsvegar mun minni en útlit var fyrir í upphafi.

Einn ökumaður er grunaður um að hafa ekið bæði undir áhrifum áfengis og fíkniefna en lögreglumenn höfðu afskipti af honum eftir að hann hafði lent í árekstri á gatnamótum á Selfossi þann 4. nóvember. 5 aðrir voru stöðvaðir við eftirlit í umdæminu grunaðir um ölvun við akstur.

2 ökumenn flutningabifreiða voru sektaðir fyrir að flytja of þungan farm.

Lögreglumenn á Suðurlandi héldu árshátíð sína á Hótel Örk um liðna helgi.   Byrjað var á starfsdegi þar sem sálfræðingur fræddi lögreglumenn og maka þeirra um streitu og afleiðingar hennar en öllum má vera ljóst að sama hver vinnan er, áhrifa hennar getur gætt heimafyrir.     Síðan var hátíðarkvöldverður um kvöldið með viðeigandi heimatilbúnum skemmtiatriðum og dansleik á eftir þar sem hljómsveit lögreglunnar hóf leikinn en síðan tók við hljómsveit sjúkraflutningamanna á Suðurlandi.  Eff-1 annarsvegar og Asistóla hinsvegar svona svo frumlegheitunum sé haldið til haga.    Met mæting var á árshátíðina af öllum stöðvum umdæmisins og leystu lögreglumenn úr nærliggjandi umdæmum vaktina á meðan þetta gekk yfir.  Við kunnum þeim og öllum þeim sem gerðu þetta kleift okkar bestu þakkir fyrir frábæra skemmtun, veitingar og þjónustu.