16 Mars 2020 13:20

Hjá lögreglunni á Suðurlandi er mikil vinna í kring um Covid19 faraldurinn eins og öðrum viðbragðsaðilum.   Aðgerðastjórn almannavarna er virk og samhæfing hennar vinnu að mestu unnin í fjarfundabúnaði.   Margir eru í sóttkví og spilar þar mest inn fjöldi nemenda í Fjölbrautaskóla Suðurlands annarsvegar og í Grunnskóla Hveragerðis hinsvegar.  9 einstaklingar hafa sætt einangrun skv. skráningum í umdæminu.

Mannlífið heldur hinsvegar áfram og ýmis verkefni sem koma inn á borð lögreglunnar.   Þannig voru tveir einstaklingar stöðvaðir grunaðir um að aka undir áhrifum fíkniefna á Suðurlandi í liðinni viku.   Annarsvegar kona á ferð á Selfossi þann 11. mars s.l. og hinsvegar karlmaður á ferð um Hvolsvöll að kvöldi 13. mars s.l.   Bæði færð til töku blóðsýnis en frjáls ferða sinna að því loknu.

Að kvöldi 14. mars var akstur dráttarvélar með heyrúlluvagn stöðvaður við Selfoss og vagninn, sem reyndist algerlega ljóslaus í myrkrinu, kyrrsettur.   Hæð farms rúlluvagnsins var slík að útilokað var að afturljós dráttarvélarinnar sæjust yfir farminn þegar ekið var á eftir flutningnum.

Afskipti voru höfð af ökumanni 19 farþega hópbifreiðar en rekstrarleyfi viðkomandi fyrirtækis reyndist útrunnið. Málið afgreitt til ákærusviðs til sektarákvörðunar.

Einn ökumaður er kærður fyrir að nota ekki öryggisbelti við akstur bifreiðar sinnar á Selfossi í vikunni.

33 voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku.   Af þeim 24 á svæðinu í kring um Vík og Kirkjubæjarklaustur.   9 voru kærðir fyrir að aka of hratt í Árnessýslu.

Sami maður var kærður sitt hvorn daginn fyrir að aka sitt hvoru ökutækinu sviptur ökurétti á Selfossi. Hann hefur áður gerst sekur um sambærileg brot og bíða mál hans útgáfu ákæru vegna þess fjölda mála sem hann hefur á sinni könnu.

2 þjófnaðarmál eru skráð til sögunnar í umdæminu  þar sem reiðufé er stolið.   Um er að ræða tilkynningar um að farið hafi verið inn í ökutæki ferðamanna á fjölförnum ferðamannastöðum og úr þeim stolið reiðufé.  Eitt þjófnaðarmál kom upp þar sem talið var að farið hafi verið inn á herbergi á gististað og þaðan stolið reiðufé úr farangri.

Þann 11. mars hringdi barn á Neyðarlínu og tilkynnti um eld.   Lauk þar með samtalinu.   Símtalið rakið í heimahús í austurhluta umdæmisins og lögregla og slökkvilið sent á vettvang.   Ekki reyndist fótur fyrir tilkynningunni en barnið fannst og var, að ósk foreldra, rætt við það um hvernig eigi að nota 112.

14 umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í vikunni, öll án meiðsla.   Í einu tilvikanna, þann 11. mars s.l. var um að ræða 14 manna rútu í för með eldri borgara um Suðurland en ekki vildi betur til en svo að rútan lenti út af Suðurlandsvegi skammt vestan Markafljóts.   Önnur bifreið kom á vettvang og tók við akstri fólksins.