22 Febrúar 2021 10:20

34 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku.   Af þeim voru 4 sem mældir voru á vegarkafla um þjóðgarðinn á Þingvöllum þar sem leyfður hámarkshraði er 50 km/klst. 4 voru kærðir fyrir hraðakstur á vegaköflum þar sem umferðarhraði hafði verið lækkaður vegna vegavinnu.   12 þessara 34 voru á ferð við Kirkjubæjarklaustur og Vík 6 í Rangárvallasýslu og 2 austur við Höfn.

Þrír ökumenn voru kærðir fyrir meinta ölvun við akstur í umdæminu í liðinni viku. Einn þeirra varð fyrir því óhappi að aka bifreið sinni á umferðarljós á gatnamótum Engjavegar og Tryggvagötu á Selfossi síðdegis þann 18. febrúar s.l. Sá var fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæslu til skoðunar en gisti síðan fangageymslur lögreglu þar til hann var bær til skýrslugjafar.

Einn ökumaður sem stöðvaður var á Laugarvatni reyndist, við athugun, undir áhrifum fíkniefna.   Hann fluttur til töku blóðsýnis og frjáls ferða sinna að því loknu.

Slökkvilið var kallað á vettvang við Sunnulækjarskóla um hádegisbil þann 19. febrúar en þar var eldur í pappírsgámi. Um minniháttar bruna var að ræða og tjón talið lítið. Líkur eru á að kveikt hafi verið í gámnum og ljóst að af slíku getur stafað umtalsverð hætta.

Höfð voru afskipti af 4 drengjum fæddum 2005 og 2006 vegna aksturs þeirra á og við reiðvegi í Rangárþingi ytra þann 19. febrúar. Rætt við foreldra þeirra auk þess sem málið verður sent barnavernd til afgreiðslu.

Einn ökumaður var kærður fyrir að nota ekki viðeigandi verndarbúnað fyrir barn í bíl sínum og annar fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiðar sinnar.

Að undanförnu hefur lögregla haft afskipti af flutningi á heyrúllum á kerrum og vögnum. Borið hefur á því að slíkur farmur væri ekki nægjanlega festur og ljóst er að rúllurnar verða ansi dýrar þegar sekt fyrir að binda þær ekki á kerruna bætist við kaupverðið.

Nú er kominn sá tími að búast má við þungatakmörkunum á vegum.   Frost er í jörðu en með hækkandi sól hlánar ofanfrá og þar með er nauðsynlegt að bregðast við til að verja vegina sem við öll viljum hafa í lagi.   Tveir ökumenn voru kærðir þegar vagnlestir þeirra reyndust við vigtun, yfir mörkum leyfðar ásþyngdar á stöðvunarstað.   Ökumenn eru hvattir til að fylgjast vel með stöðunni og haga skipulagi lestunar eftir gildandi þungatakmörkunum hverju sinni.

Aurskriða féll niður undir tún á bænum Dynjanda skammt austan við Höfn í Hornafirði þann 15. febrúar.   Tjón á raflínu þar sem staurastæða brotnaði en ekki hætta af skriðunni að öðru leiti.

Björgunarsveitir og Landhelgisgæsla fóru til aðstoðar slösuðum vélsleðamanni við Tjaldafell þann 20. febrúar. Ferðafélagar viðkomandi höfðu komið honum í skjól í skála í Karlaríki og hlúð að honum þar.   Þyrla flutti síðan á slysadeild.

Aur-/grjótskriða við Dynjanda austan Hafnar