17 September 2018 11:23

47 ökumenn hafa verið kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu á þessu tímabili.   Einn þeirra var kærður fyrir að aka á 91 km/klst hraða innanbæjar á Selfossi og er að auki grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.   Við leit í bifreið hans fundust auk þess ætluð fíkniefni.

Einn þessara ökumanna var mældur á 150 km/klst hraða á þjóðveginum um Hellisheiði þann 7. September s.l. en þar er sem kunnugt er 90 km/klst leyfður hámarkshraði. Sá reyndist sænskur ríkisborgari og gekkst undir viðurlög vegna brotsins á vettvangi.   3 aðrir ökumenn voru á meiri hraða en 130 km/klst.

Auk þess sem nefndur var hér að ofan voru 6 aðrir stöðvaðir grunaðir um að aka undir áhrifum fíkniefna. 5 á eða við Selfoss og einn austur á Höfn. 4 voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis.   Einn þeirra á Höfn þann 9. september s.l.

4 ökumenn voru kærðir fyrir nota farsíma samhliða akstri bifreiða sinna. Þeir sitja uppi með 40 þúsund króna sekt hver fyrir brot sín.   2 voru kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti við akstur og situr hvor um sig uppi með 20 þúsund króna sekt.

Skráningarnúmer voru tekin af 4 ökutækjum sem reyndust ótryggð í umferðinni. Sekt við því að tryggja ekki ökutæki lögboðinni ökutækjatryggingu er 50 þúsund krónur.

Í 9 málum reyndust málsaðilar vera með lítilræði af fíknifefnum á sér.   Tilfinning lögreglumanna er að í mjög vaxandi mæli séu að koma upp afskipti af einstaklingum sem eru, vegna langvarandi kannabisneyslu, í geðrofi og engin leið að ná til viðkomandi. Þannig þurfti að vista ungan mann, sem fannst ráfandi á sokkaleistunum á Selfossi, í fangaklefa um liðna helgi.  Maðurinn var í alvarlegu geðrofi, taldi sig vera af öðrum heimi og ófær um að gæta öryggis síns.   Ekki fékkst pláss á viðeigandi sjúkrastofnun vegna vímuástands viðkomandi og að endingu tóku aðstandendur viðkomandi við honum.   Ljóst er að allir þeir sem láta sig uppeldi varða, þ.m. fjölmiðlar þurfa að taka ábyrgð á því samfélagi sem við búum í og halda á lofti skaðsemi kannabisefna. Óábyrgum aðilum hefur, undanfarin ár, liðist að fjalla gagnrýnilaust um þessi efni í fjölmiðlum líkt og neysla þeirra sé fólki skaðlaus.

Þann 9. september s.l. varð barn á reiðhjóli fyrir bifreið á Höfn. Meiðsl þess reyndust minniháttar, aðeins skrámur og mar.   Þann 10. september var ekið á barn á reiðhjóli á Selfossi. Sömuleiðis þar reyndust meiðsl vera minniháttar.   Ökumenn eru hvattir til að hafa í huga fjölda þeirra óreyndu vegfarenda sem fara nú í upphafi skólaárs um götur og gangstéttir og gæta sérstaklega að öryggi síns og þeirra.