19 Desember 2016 12:00

Stjórnendur og millistjórnendur af öllum starfsstöðvum á Suðurlandi sóttu námskeið sem embættið stóð fyrir s.l. fimmtudag þar sem farið var yfir það sem vel er gert og hvað má fara betur í stjórnun liðsins en nú eru að verða tvö ár frá því embætti Lögreglustjórans á Suðurlandi var stofnsett og til mikils að vinna að stjórnun embættis sem þekur 30.970 km2 gangi hnökralaust.   Leiðbeinandi á námskeiðinu var Eyþór Eðvarðsson frá Þekkingarmiðlun ehf en hann hefur áður verið með fyrirlestur á starfsdegi embættisins.  Mikil ánægja er með námskeiðið og efni þess og umræður sem þar fóru fram.   Á föstudagskvöldinu fóru allir starfsmenn lögreglu á árlegt jólahlaðborð sem að þessu sinni var haldið á Hótel Rangá þar sem einstaklega vel var tekið á móti mönnum og veitingarnar og þjónusta öll til fyrirmyndar.   Ekki gekk að skilja umdæmið eftir eftirlitslaust og því sinntu lögreglumenn frá Suðurnesjum, Höfuðborgarsvæðinu, Héraðssaksóknara og frá Djúpavogi vaktinni á meðan.

7 umferðaróhöpp eru skráð í umdæmi Lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku. Slys á fólki urðu í tveimur þeirra en þó ekki alvarleg.   Annarsvegar rákust saman tvær bifreiðar á gatnamótum Langasands og Dynskála á Hellu snemma að morgni 12. desember s.l.   Áreksturinn var harður og reyndist ökumaður annarrar bifreiðarinnar, kona  um tvítugt hafa meiðst og var hún flutt á heilsugæslustöðina á Hellu til aðhlynningar.  Um miðjan dag á þann 18. desember  fór bifreið útaf  Suðurlandsvegi, skammt frá Þorvaldseyri og var ökumaður hennar fluttur á með sjúkrabifreið  af vettvangi en meiðsl hans eru ekki talin alvarleg.

21 var kærður fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku.   Sem fyrr eru flestir þeirra í austurhluta umdæmisins þar sem hraði virðist almennt vera mun meiri en vestan megin m.v. fjölda afskipta lögreglu.  7 þeirra sem mældir voru reyndust á hraðanum frá 131 til 140 og 2 mældust á meiri hraða en 140 km/klst

Þrír voru kærðir fyrir að aka bifreiðum sínum með of þungan farm. Einn þeirra, ökumaður sem ók vörubifreið með vagni sem á var dráttarvél, reyndist meira en 30% yfir leyfðri þyngd á Vífilsstaðavegi  en þar var 5 tonna ásþungi leyfður.

Tvennt er kært fyrir líkamsárás við skemmtistað á Selfossi aðfaranótt sunnudags. Annarsvegar karlmaður sem gisti fangageymslur eftir slagsmál þar og hinsvegar stúlka sem talin er hafa sparkað í andlit hans þar sem honum var haldið af nærstöddum.   Unnið er að rannsókn málsins.

Lítilræði af ætluðu kókaíni fannst í vasa manns um tvítugt sem lögregla hafði afskipti af á Selfossi aðfaranótt sunnudags.   Efnið, sem maðurinn sagði ætlað til eigin neyslu, voru haldlögð en maðurinn fór frjáls ferða sinna að skýrslutöku lokinni.