27 Janúar 2020 10:04

Nú er tími þorrablótanna víðsvegar í umdæminu. Lögreglumenn hafa stöðvað umferð frá þessum skemmtilegu samkomum og látið ökumenn blása og góðu fréttirnar eru þær að enginn þeirra fjölmörgu sem blésu í áfengismæli reyndist ölvaður. Þá fóru þorrablót helgarinnar að öðru leiti vel fram ef frá er skilið atvik á þorrablóti í Sveitarfélaginu Hornafirði þar sem lögregla var kölluð til vegna æsts gests sem mun m.a. hafa bitið mann við dyravörslu þar.   Gesturinn róaðist í höndum lögreglumanna og fékk aðstoð við að komast til síns heima.

Einn ölvaður ökumaður var stöðvaður á Selfossi að kvöldi fimmtudagsins 23. janúar.   Sá frjáls ferða sinna að töku blóðsýnis lokinni og bíður mál hans nú niðurstöðu þeirrar rannsóknar. 21 ökumaður var kærður fyrir að aka of hratt í liðinni viku. Rúmlega helmingur þeirra á svæðinu í kring um Vík og Kirkjubæjarklaustur og 3 þessara ökumanna voru á 130 km/klst hraða eða meira á 90 km/klst vegi. Einn var stöðvaður innanbæjar á Selfossi á 75 km/klst hraða þar sem 50 km/klst er leyfður hraði.

14 umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu í umdæminu í vikunni.   Öll án alvarlega meiðsla. Í þremur tilvikum var um að ræða fólksflutningabíla og í þeim 17, 21 og 45 farþegar.   Þeim málum hefur öllum verið gerð skil í umræðu fjölmiðla.   Lögregla hvetur alla til þess að nota öryggisbelti því þau virðast vera það sem skiptir öllu máli í að lágmarka meiðsl þegar slysin verða.   Skynsamlegt er að ökumenn fólksflutningabíla hvetji farþega sína til þess að nota belti og kynni erlendum gestum okkar skyldu til þess.

Erlendir ferðamenn við Gullfoss þann 26. janúar tilkynntu um þjófnað á fjármunum frá þeim en svo virðist sem farið hafi verið inn í bíl þeirra á stæði þar og peningarnir teknir.   Aðrir ferðamenn sem voru þar á ferð þann 23. janúar urðu þess varir að morgni næsta dags að frá þeim höfðu verið teknir peningar og er mögulegt að það hafi gerst á svipuðum slóðum án þess að þau hafi orðið þess vör. Tilkynningar sem þessar berast lögreglu alltaf af og til og full ástæða til þess að hvetja fólk til að gæta að verðmætum í ferðum sínum.

Lögreglumenn hafa fylgst með þróun vatnsrennslis sem flæðir nú suður á flatlendið milli Brúnasaða og Austurkots úr Hvítá. Stór hluti þess rennur aftur í farveg árinnar vestan Oddgeirshóla en annað í framræslu- og áveituskurði.   Áfram verður fylgst með ástandinu en ekki er talið að þetta valdi tjóni umfram það að girðingar leggist undan jakaburði og vegir sem vatn rennur yfir skemmist.