25 September 2006 12:00

Ekkert lát er á glæfraakstri eins og sýndi sig í Ártúnsbrekkunni síðdegis á laugardag. Þá varð mjög harður árekstur tveggja bíla, fólksbifreiðar og jeppa, en af ummerkjum á vettvangi er ljóst að ökumaður fólksbílsins, 19 ára piltur, ók langt yfir leyfilegum hámarkshraða. Með honum í bílnum voru tveir farþegar, 18 ára piltur og 17 ára stúlka. Ökumaðurinn í jeppanum, 52 ára karlmaður, var einn á ferð. Það þykir mikil mildi að þau skyldu ekki slasast illa enda var áreksturinn harður eins og fyrr segir og báðir bílarnir skemmdust mjög mikið.

Tildrög slyssins eru þau að fólksbifreiðinni var ekið á miklum hraða aftan á jeppann sem við það kastaðist á vegrið á miðeyju. Þar fór annað framhjólið undan jeppanum sem kastaðist síðan áfram yfir veginn og fór loks út af norðanmegin við Ártúnsbrekkuna en bílarnir voru á vesturleið. Hemlaförin eftir fólksbifreiðina voru samtals 184 metrar. Þar af voru 80 metra hemlaför áður en hún keyrði á jeppann.

Ökumaður fólksbifreiðarinnar segist hafa verið á 120-130 km hraða en ökumaður jeppans telur sig hafa ekið á 80 km hraða. Greinilegt er að vegrið bjargaði miklu í þessu óhappi en það skemmdist á 21 metra kafla við þennan árekstur. Án þess má telja að annar bílinn eða báðir hefðu farið yfir á vegarkaflann þar sem ökumenn keyra Ártúnsbrekkuna í austurátt.

Þess má geta að ökumaður fólksbifreiðarinnar var sviptur ökuréttindum á síðasta ári. Hann fékk ökuskírteinið á nýjan leik síðastliðin föstudag eða daginn fyrir áreksturinn í Ártúnsbrekkunni.