23 Nóvember 2007 12:00
Verkefni lögreglu eru af ýmsum toga líkt og kom í ljós þegar laganna verðir voru kallaðir að húsi í miðborginni. Tilkynnandi óttaðist mjög um nágranna sína og taldi að eitthvað mikið gengi á í íbúð þeirra þegar hann hringdi og óskaði eftir aðstoð lögreglunnar. Brugðist var skjótt við en þegar bankað var hjá fólkinu sem óttast var um, kom kona á þrítugsaldri til dyra og furðaði sig mjög á þessari heimsókn lögreglunnar. Konan reyndist einsömul heima og ekki var að sjá að neinn hefði lagt á hana hendur. Við frekari eftirgrennslan kom hins vegar í ljós að hún hafði verið að horfa á hryllingsmynd og sleppt sér gjörsamlega yfir myndinni sem var víst ansi magnþrungin. Eftir þessar upplýsingar kvöddu lögreglumennirnir konuna sem lofaði að reyna að hemja sig. Þrátt fyrir það sem hér er nefnt skal það tekið fram að betra er að hringja einu sinni of oft í lögreglu en einu sinni of sjaldan.