11 Júlí 2014 12:00

Lögreglumenn eru í eðli sínu hjálpsamir enda snýst starf þeirra að stórum hluta um að aðstoða borgarana. Hvort íslenskir lögreglumenn séu hjálpsamari en erlendir starfsbræður þeirra skal ósagt látið, en þrír ferðamenn í Reykjavík fullyrða þó að svo sé. Niðurstaða þeirra byggir á atviki sem átti sér stað á bílastæði handan lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu um síðustu helgi. Þá voru nokkrir lögreglumenn í morgunkaffi þegar þeir verða þess varir að ökumanni bifreiðar gengur vægast erfiðlega að komast af stað, en þeir horfðu á aðfarirnar út um glugga stöðvarinnar. Ökumaðurinn var búinn að reyna allnokkrum sinnum, en alltaf drapst á bílnum þegar aka átti af stað. Ljóst var að hér þurfti að grípa inn í og snaraði einn lögreglumannanna sér yfir götuna og inn á bílastæðið til að kynna sér hverju þetta sætti. Ökumaðurinn, bandarískur ferðamaður ásamt tveimur samlöndum, reyndist vera í fínu standi og með öll tilskilin réttindi, en hann hafði hins vegar enga reynslu af því aka beinskiptum bíl og þar lá vandinn. Lögreglumaðurinn sýndi ökumanninum hvernig hann ætti að bera sig að og var ferðamaðurinn útskrifaður á mettíma úr þessum óvenjulega „ökuskóla”. Að því loknu var lögreglumanninum ekið aftur þessa stuttu leið að lögreglustöðinni og gekk allt eins og í sögu og ekki annað að sjá en ökumaðurinn hafi náð góðum tökum á því að aka beinskiptum bíl. Hann og farþegarnir voru himinlifandi með þessa greiðvikni lögreglumannsins og höfðu á orði að lögreglumenn í þeirra heimalandi byðu nú ekki upp á svona frábæra þjónustu.