17 Nóvember 2010 12:00

Víða á höfuðborgarsvæðinu eru hlaupahópar starfandi og virðist fjölga með hverjum mánuðinum. Áberandi hefur verið í vetur hversu endurskinsmerki eru lítið notuð hjá mörgum þessara hópa þó á ferð séu í myrkri á eða við umferðargötur. Stórhætta hefur skapast af þessum sökum.  

Það hefur jafnframt vakið athygli lögreglu að eðlileg aðgæsla hlaupara og virðing fyrir umferðarlögum er á stundum lítil. Þeir fara til að mynda óhikað yfir umferðargötur án þess að nota gangbrautir þó þær séu nærri og fara yfir á móti rauðu gangbrautarljósi. 

Lögregla beinir þeim vinsamlegu tilmælum því til hlaupara sem við þessa lýsingu kannast; foreldra, afa, ömmur, frændur og frænkur, til að sýna gott fordæmi í umferð með því að nota endurskinsmerki og virða umferðarlög og reglur. Þannig stuðla þeir að eigin umferðaröryggi og annarra.