27 Júní 2023 09:29

Karlmaður á þrítugsaldri var stunginn með hnífi í miðborginni í gærkvöld eftir að til átaka kom bakatil við hús við Austurvöll. Maðurinn var fluttur á Landspítalann, gekkst þar undir aðgerð og er líðan hans eftir atvikum.

Tilkynning um málið barst lögreglu á ellefta tímanum og hélt hún þegar á vettvang, en fjórir voru handteknir í þágu málsins. Þremur þeirra var fljótlega sleppt úr haldi, en sá fjórði, sem er ungur að árum, er vistaður í viðeigandi úrræði.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um rannsókn málsins að svo stöddu.