10 September 2015 15:42

Á mánudaginn síðasta lokaði Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hóteli í miðborg Reykjavíkur vegna skorts á rekstrarleyfi. Hafði rekstraraðili hótelsins fengið ítrekaða fresti til að ganga frá þeim atriðum sem ullu því að ekki fékkst viðeigandi leyfi, en þegar ljóst var að mál yrðu ekki komin í samt lag innan loka frests, var tekin ákvörðun um að loka hótelinu. Þegar til lokunar kom hafði gestum verið komið annað þannig að enginn þeirra neyddist til að fá gistingu á lögreglustöðinni.

Lögreglan ítrekar að rekstraraðilar séu með leyfismál í lagi, allra vegna, enda vill enginn lenda í því mikla raski sem veldur því að lögreglan þurfi að loka með þessum hætti. Lögreglan mun halda áfram eftirliti með gististöðum enda ekki vanþörf á.