23 Febrúar 2012 12:00
Brot 12 ökumanna voru mynduð á Austurbrún í Reykjavík í gær. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Austurbrún í norðurátt, á milli Hólsvegar og Dragavegar. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 39 ökutæki þessa akstursleið og því ók næstum þriðjungur ökumanna, eða 31%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 44 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 50.
Eftirlit lögreglunnar á Austurbrún kom í kjölfar ábendinga frá íbúum í hverfinu. Þar býr talsvert af eldri borgurum og margir þeirra eiga leið yfir götuna. Lögreglan biður ökumenn að hafa þetta hugfast og miða akstur alltaf við aðstæður, á Austurbrún sem annars staðar.