10 Mars 2011 12:00

Brot 124 ökumanna voru mynduð á Hafnarfjarðarvegi í gær. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Hafnarfjarðarveg í suðurátt, gegnt Akrahverfi í Garðabæ. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 968 ökutæki þessa akstursleið og því ók meira en tíundi hluti ökumanna, eða 13%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 94 km/klst en þarna er 80 km hámarkshraði. Átján óku á 100 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 115.

Á umræddum vegarkafla hefur verið nokkuð um umferðaróhöpp, m.a. vegna hraðaksturs, og þannig var vöktun lögreglunnar tilkomin. Orsök óhappa á þessum stað má ennfremur rekja til þess að ekið er of hratt miðað við þéttni umferðar, óvæntar aðstæður skapast svo sem ökutæki bilar á og/eða við veginn, ökumenn þurfa að draga snögglega úr hraða vegna ytri aðstæðna og ökumenn sem aka inn á veginn átta sig ekki á þeim hraða sem kann að vera á þessum vegarkafla.