9 Mars 2009 12:00
Umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu tók fjörutíu ökumenn fyrir hraðakstur í umdæminu um helgina. Langflestir þeirra voru stöðvaðir á Hafnarfjarðarvegi en þar hefur borið töluvert á hraðakstri að undanförnu. Þeir sem voru teknir þar um helgina voru nær allir á 100-110 km hraða en sá sem hraðast ók á Hafnarfjarðarvegi mældist á 125 en þarna er 80 km hámarkshraði.
Fyrir helgina boðaði lögreglan aukið umferðareftirlit á Hafnarfjarðarvegi en fyrrnefndar hraðamælingar undirstrika nauðsyn þess. Í eftirlitinu felst aukin sýnileg löggæsla og ökumenn mega því áfram búast við að sjá lögreglumenn við radarmælingar. Sömuleiðis verður sérstakur myndavélabíll embættisins notaður af þessu tilefni. Þessar aðgerðir lögreglu munu standa eins lengi og þörf krefur.