20 Febrúar 2012 12:00

Brot 21 ökumanns var myndað á Hjarðarhaga í Reykjavík í dag. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Hjarðarhaga í austurátt, að Dunhaga. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 42 ökutæki þessa akstursleið og því ók helmingur ökumanna, eða 50%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 45 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði. Fjórir óku á 50 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 56. Þess má geta að lögreglu barst ábending um hraðakstur á Hjarðarhaga og var þess sérstaklega getið að ökumenn lækkuðu ekki einu sinni hraðann þegar farið væri yfir merktar gangbrautir sem þarna eru. Tilkynnandi benti á að þetta ætti líka við um ökumenn strætisvagna. Samkvæmt tölunum hér að ofan hefur tilkynnandi sitthvað til síns máls og eins er vert að nefna að tveir hinna brotlegu eru ökumenn strætisvagna.

Vöktun lögreglunnar á Hjarðarhaga er liður í umferðareftirliti hennar í nágrenni við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu.