20 Júlí 2009 12:00
Nokkuð bar á hraðakstri á höfuðborgarsvæðinu um helgina en lögreglan stöðvaði för allmargra ökumanna fyrir þær sakir. Ökufantarnir voru teknir víðsvegar í umdæminu en grófasta brotið var framið á Hringbraut í Reykjavík en þar ók hálfþrítugur karl bifhjóli á 130 km hraða. Á sömu götu mældist bíll á liðlega 100 km hraða en undir stýri var kona á þrítugsaldri. Piltur um tvítugt var tekinn á Bústaðavegi en hann ók bíl sínum einnig á 100 km hraða. Þá voru tveir bifhjólamenn staðnir að hraðakstri á Reykjanesbraut, sunnan Hafnarfjarðar, en hjól þeirra mældust á tæplega 150 km hraða. Annar mannanna er rúmlega tvítugur en hinn þrítugur. För 19 ára pilts var stöðvuð í Grafarvogi en bíll hans mældist á 118 km hraða á Gullinbrú og svo mætti lengi áfram telja. Eins og fram hefur komið var lögreglan víða við eftirlit en ökufantar voru einnig stöðvaðir á Hafnarfjarðarvegi, Miklubraut, Vesturlandsvegi, Suðurlandsvegi og Þingvallavegi, svo fleiri dæmi séu tekin.