9 Febrúar 2010 12:00

Tæplega fimmtíu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina en í allra grófustu brotunum var ekið á 50-60 km hraða umfram leyfðan hámarkshraða. Mikill meirihluti hinna brotlegu voru karlar. Þeir eru langflestir á þrítugsaldri en nokkrir eru undir tvítugu. Níu konur voru stöðvaðar í þessu hraðaeftirliti en þær eru á aldrinum 18-44 ára.

Eitt brot var reyndar grófara en þau sem áður voru nefnd en þar átti í hlut 17 ára piltur sem var stöðvaður á Hringbraut. Þar mældist bíll hans á 121 km hraða á móts við Bjarkargötu. Kauði var sviptur ökuleyfi til bráðabirgða og svo var einnig um fleiri ökumenn þessa helgina. Þá vakti líka athygli lögreglu það kæruleysi sumra ökumanna sem hirða ekki um að endurnýja ökuskírteinið og eins hinna sem ekki hafa það meðferðis.