27 Apríl 2010 12:00

Hátt í hundrað ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en í allra grófustu brotunum var ekið á 40-50 km hraða umfram leyfðan hámarkshraða. Mikill meirihluti hinna brotlegu voru karlar. Þeir eru flestir á þrítugsaldri. Tæplega fjórðungur hinna brotlegu voru konur en þær eru á aldrinum 18-66 ára.

Eitt brot var reyndar grófara en þau sem áður voru nefnd en þar átti í hlut karl á sextugsaldri sem var stöðvaður á Miklubraut. Þar mældist bíll hans á 139 km hraða á móts við Rauðagerði. Viðkomandi hefur áður verið staðinn að hraðakstri en þó ekkert í líkingu við þetta.