25 Febrúar 2011 12:00
Nokkuð ber á hraðakstri á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir. Tuttugu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur á Reykjanesbraut í Garðabæ í gær og í fyrradag voru höfð afskipti af allnokkrum ökumönnum sem fóru heldur greitt um Ártúnsbrekku. Á báðum stöðum er 80 km hámarkshraði en allir fyrrgreindir ökumenn óku á 100 km hraða eða meira. Lögreglan hefur einnig verið við hraðamælingar á Engjavegi í Laugardal undanfarna daga og orðið vitni að háu brotahlutfalli, jafnvel 73%. Þar er 30 km hámarkshraði en í gær var bíll mældur þar á 64. Ökumaðurinn, karl um fimmtugt, var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.