22 Maí 2007 12:00

Fjörutíu og einn ökumaður var tekinn fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Grófustu brotin voru framin á Hringbraut á föstudagskvöld og á Miklubraut aðfaranótt laugardags. Á fyrrnefnda staðnum mældist bíll tæplega þrítugs karlmanns á 142 km hraða og var ökumaðurinn sviptur ökuréttindum til bráðabirgða. Á síðarnefnda staðnum mældist bíll 17 ára pilts á 171 km hraða og var hann sömuleiðis sviptur ökuréttindum til bráðabirgða. Í bíl piltsins var einn farþegi, 16 ára stúlka. Fimm aðrir ökumenn eiga ökuleyfissviptingu yfir höfði sér en einn þeirra ók langt yfir leyfðum hámarkshraða í íbúðargötu.

Í gær voru sömuleiðis nokkrir ökumenn staðnir að hraðakstri. Fjórir þeirra mega búast við ökuleyfissviptingu en einn þeirra var stöðvaður á Hafnarfjarðarvegi í gærkvöld. Sá ók á 144 km hraða.

Þrjátíu og tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á síðasta sólarhring. Á sama tímabili voru skráningarnúmer fjarlægð af sautján ökutækjum sem öll voru ótryggð.