3 Maí 2021 15:44
Nokkuð hefur verið um hraðakstur í umdæminu undanfarna daga og þar hafa ekki síst ungir ökumenn komið við sögu. Einn þeirra, 17 ára piltur, var staðinn að hraðakstri á Sæbraut, en bíll hans mældist á 135 km hraða og viðkomandi á nú yfir höfði sér sviptingu ökuréttinda í þrjá mánuði og 180 þúsund kr. í sekt. Annar piltur, rúmlega tvítugur, ók Reykjanesbraut í Garðabæ á 165 km hraða og bíður hans líka þriggja mánaða svipting, auk 250 þúsund kr. í sekt. Hinir „reynslumeiri“ hafa líka komið við sögu vegna hraðaksturs síðustu daga, en karlmaður á áttræðisaldri ók bíl sínum á 73 km hraða á götu í Kópavogi þar sem leyfður hámarkshraði er 30. Sá á sömuleiðis yfir höfði sér sviptingu ökuréttinda í þrjá mánuði, auk sektar kr. 90 þúsund.
Lögreglan minnir alla á að fara varlega í umferðinni og að flýta sér hægt!