8 Maí 2007 12:00
Fimmtíu og einn ökumaður var tekinn fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um síðustu helgi. Þetta voru tíu konur og fjörutíu og einn karlmaður en allir úr þessum hópi eiga sekt yfir höfði sér. Að auki mega nokkrir búast við ökuleyfissviptingu.
Konurnar eru á aldrinum 23-56 ára en hjá körlunum voru tveir aldurshópar áberandi. Fjórtán eru á þrítugsaldri og ellefu eru yngri en 20 ára. Í hópi yngstu ökumannanna eru fimm piltar sem eru 18 og 19 ára og sex eru 17 ára. Einn þessara 17 ára pilta var tekinn í Ártúnsbrekku en bíll hans mældist á 135 km hraða.
Þá er það umhugsunarefni að ökumenn skuli halda áfram akstri þrátt fyrir að hafa verið sviptir ökurétti. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur afskipti af slíkum ökumönnum á nánast hverjum degi. Nýliðin helgi var engin undantekning í þeim efnum og t.d. reyndist 19 ára piltur, sem var stöðvaður fyrir hraðakstur um helgina, þegar hafa verið sviptur ökurétti. Sami piltur virti ekki heldur stöðvunarmerki lögreglu og freistaði þess að komast undan en hafði ekki erindi sem erfiði. Viðkomandi er nú í slæmum málum því fyrir að aka sviptur fær hann 60 þúsund króna sekt (fyrsta brot) auk annarra refsinga sem hann á yfir höfði sér.