26 Júní 2007 12:00

Lögregla hefur einnig lagt aukna áherslu á þennan málaflokk og hafa til að mynda 6.127 brot á reglum um of hraðan akstur verið skráð á fyrstu fimm mánuðum þessa árs á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma í fyrra hafði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skráð 5.638 sambærileg brot og árið 2005 voru þau 4.056.

Þrátt fyrir mikla umræðu um ofsaakstur þá kemur í ljós að meðalhraði í málum þar sem kært var fyrir of hraðan akstur er lægri í ár en fyrri ár. Þannig voru tæplega 67 prósent ökumanna sem kærðir voru fyrir of hraðan akstur á svæðum þar sem hámarkshraði er 60 kílómetrar á klukkusund á 71 til 90 kílómetra hraða en árið 2006 var sambærilegt hlutfall 41 prósent og tæplega 44 prósent árið 2005.

Þegar litið er til ofsaaksturs á svæðum þar sem hámarkshraði er 60 kílómetrar á klukkustund þá kemur í ljós að á fyrstu fimm mánuðum ársins 2005 var fjórðungur ökumanna sem kærðir voru fyrir of hraðan akstur á þessum svæðum á yfir 100 kílómetra hraða á klukkustund, í fyrra var um 23 prósent ökumanna á yfir hundrað en í ár hafa tæplega níu prósent ökumanna verið á svo miklum hraða.

Sama má sjá þegar skoðuð eru svæði innan embættisins þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Þannig var 29 prósent ökumanna á yfir 120 kílómetra hraða á klukkustund á fyrstu fimm mánuðum árs 2005 á þessum svæðum, tæplega 32 prósent árið 2006 en rúmlega 16 prósent það sem af er þessu ári.

Þegar skoðaður er meðalhraði á nokkrum mælistöðum Vegagerðarinnar fyrir sama tímabil kemur svipuð niðurstaða í ljós. Þannig hefur meðalhraði við Árvelli á Kjalarnesi farið úr tæplega 92 kílómetra á klukkustund niður í 90 kílómetra á klukkustund. Sama má sjá á Dalvegi þar sem meðalhraði hefur farið úr 84 kílómetrum á klukkustund í 79 kílómetra á klukkustund. Meðalhraði ofan við Ártúnsbrekku og við Korpu hefur hins vegar farið upp á tímabilinu. Að sjálfsögðu hafa vegaframkvæmdir á þessum svæðum mikil áhrif á ökuhraða og er nánast ógerlegt að meta þau áhrif. Þó kemur í ljós þegar frjáls meðalhraði þeirra sem aka hraðast á þessum svæðum (það er þegar aksturshraði stjórnast ekki af þéttni umferðar) er skoðaður að mynstrið er nánast eins og þegar meðalhraði er skoðaður.

Það er því jákvætt að sjá að ökumenn virðast í auknum mæli virða reglur um hámarkshraða ökutækja eða víkja a.m.k. minna frá hámarkshraða nú en áður.