31 Júlí 2007 12:00
Tæplega sextíu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina en þeir voru stöðvaðir víðsvegar í umdæminu. Hinir sömu eiga allir sekt yfir höfði sér en nokkrir í þessum hópi verða jafnframt sviptir ökuleyfi.
Hinir brotlegu eru á ýmsum aldri og af báðum kynjum. Karl á fertugsaldri var tekinn á Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar en bíll hans mældist á 153 km hraða. Sautján ára piltur var stöðvaður á Reykjanesbraut í Garðabæ en bíll hans mældist á 143 km hraða. Átján ára stúlka var tekin í Stekkjarbakka en hún ók bíl sínum á 102 km hraða og svo mætti áfram telja. Þá vakti nokkra athygli lögreglu hraðakstur í íbúðargötu í Breiðholti. Fimm ökumenn voru staðnir þar að hraðakstri en þeir óku allir á liðlega tvöfalt leyfilegum hámarkshraða.
Í gær voru tuttugu ökumenn teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu en þá virðist sem hraðinn hafi almennt verið öllu skárri.