25 Júlí 2008 12:00

Allnokkrir ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Langflestir þessara ökufanta eru um tvítugt en þeir voru stöðvaðir víða á höfuðborgarsvæðinu. Hætt er við að pyngja þeirra léttist þegar kemur að skuldadögum en ökufantarnir eiga 50-70 þúsund króna sekt í vændum.

Grófasta brotið framdi 18 ára piltur á Kringlumýrarbraut, á móts við Nesti, en hann ók bifhjóli sínu á tæplega 150 km hraða. Fyrir þennan vítaverða akstur á hann yfir höfði sér 140 þúsund króna sekt og ökuleyfissviptingu í tvo mánuði.