30 Júní 2009 12:00

Mikið bar á hraðakstri á höfuðborgarsvæðinu í gær en lögreglan stöðvaði för rúmlega sjötíu ökumanna fyrir þær sakir. Ökufantarnir voru teknir víðsvegar í umdæminu en eitt grófasta brotið var framið á Reykjanesbraut í Garðabæ, á móts við IKEA. Þar mældist bíll sautján ára stúlku á 121 km hraða en á þessum hluta vegarins er 70 km hámarkshraði. Stúlkan fékk ökuskírteini í hendur fyrir fáeinum vikum en á greinilega mikið ólært. Sama má raunar segja um hálfþrítuga konu sem var staðin að hraðakstri á Vesturlandsvegi, neðan við Bauhaus. Hún ók á 130 km hraða en þarna er 80 km hámarkshraði.