28 Júlí 2009 12:00

Mikið bar á hraðakstri á höfuðborgarsvæðinu um helgina en lögreglan stöðvaði för margra ökumanna fyrir þær sakir. Ökufantarnir voru teknir víðsvegar í umdæminu en í grófustu brotunum var ekið á 40-50 km hraða umfram leyfðan hámarkshraða. Jafnan áttu þá í hlut ungir ökumenn, eða piltar undir tvítugu. Lögreglan var víða við þetta eftirlit og má nefna bæði Vesturlandsveg og Suðurlandsveg. Sömuleiðis á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, Garðabæ og Reykjavík. Í miðborginni var 17 ára piltur staðinn að hraðakstri á Laugavegi en annars voru þessir ökufantar á ýmsum aldri og af báðum kynjum, en karlar þó í meirihluta. Í einhverjum tilvikum var um að ræða ökumenn sem voru líka með eftirvagna. Einn slíkur var tekinn við borgarmörkin á 110 km hraða en hefði með réttu ekki mátt aka þar hraðar en á 70 km hraða. Ýmislegt fleira en hraðakstur var aðfinnsluvert hjá sumum ökumönnum en einn þeirra var t.d. á bíl búnum nagladekkjum og fær hann sekt fyrir það að auki.