14 Mars 2007 12:00

Lögreglan var víða við hraðamælingar á höfuðborgarsvæðinu í gærdag og notaði til þess m.a. sérútbúinn myndavélabíl. Sem fyrr kom hann að góðum notum en eftir hádegi voru mynduð brot 109 ökumanna í Kópavogi en þeir óku Dalveg í austurátt. Vélin vaktaði 386 ökutæki sem fóru þarna um og því ók meira en fjórðungur ökumanna of hratt. Meðalhraði hinna brotlegu var tæplega 64 km/klst en leyfður hámarkshraði á Dalvegi er 50. Sá sem hraðast ók var mældur á 86.

Myndavélabíllinn var líka við hraðamælingar í Hafnarfirði síðdegis. Mynduð voru brot 58 ökumanna á Strandgötu en alls fór 741 ökutæki þessa leið á meðan hraðamæling stóð yfir. Meðalhraði hinna brotlegu var liðlega 62 km/klst en leyfður hámarkshraði á Strandgötu er 50. Hraðaksturinn þar var því langtum minni en á Dalvegi þegar litið er á niðurstöður gærdagsins. Rétt er að taka fram að lögreglan fylgdist með umferð á Strandgötu á þeim hluta vegarins þar sem ekið er yfir gangbraut. Í ljósi þess hefðu ökumenn mátt sýna enn meiri aðgát.

Ökumenn voru líka staðnir að hraðakstri á Vesturlandsvegi, Kringlumýrarbraut, Hafnarfjarðarvegi og Reykjanesbraut svo dæmi séu tekin. Hinir sömu óku allir á yfir 100 km hraða.