18 Október 2006 12:00

240 ökumenn eiga nú sekt yfir höfði sér fyrir að virða ekki 60 km leyfilegan hámarkshraða á Hringbrautinni í gær og fyrradag. Brot þeirra náðust á löggæslumyndavél lögreglunnar í Reykjavík en hinir brotlegu óku að jafnaði á 83 km hraða. Þrír voru mældir á 100 eða þar yfir en sá sem hraðast ók var á 104 km hraða. Umrædd myndavél er staðsett á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu. Að venju var lögreglan víða við hraðamælingar og t.d. voru nokkrir ökumenn teknir fyrir hraðaakstur í Norðurfelli í Breiðholti. Þar er 30 km hámarkshraði sem mörgum gengur illa að virða.

Sautján árekstrar urðu í borginni í gær en í einum þeirra varð slys á fólki, minniháttar þó. Þrír voru teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi á síðasta sólarhring. Þrír voru sömuleiðis teknir fyrir ölvunarakstur. Þá stöðvaði lögreglan för tveggja ökumanna sem þegar var búið að svipta ökuleyfi. Og loks var tveimur ökumönnum gert að spenna beltin. Enn skortir nokkuð á að allir ökumenn noti bílbelti en þó virðist ástandið hafa skánað örlítið í þeim efnum.