20 September 2006 12:00

420 ökumenn eiga nú sekt yfir höfði sér fyrir að virða ekki 60 km leyfilegan hámarkshraða á Hringbrautinni um síðustu helgi. Brot þeirra náðust á löggæslumyndavél lögreglunnar í Reykjavík en hinir brotlegu óku að jafnaði á tæplega 85 km hraða. Níu voru mældir á 100 eða þar yfir en sá sem hraðast ók var á 124 km hraða. Umrædd myndavél er staðsett á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu en á áðurnefndum tíma var sex ökutækjum ekið gegn rauðu ljósi. Hinir sömu eiga líka sekt yfir höfði sér.

Umferðin í gær gekk annars þokkalega fyrir sig í höfuðborginni að því undanskildu að umferðaróhapp varð í Ártúnsbrekkunni. Af því hlutust miklar tafir eins og fram hefur komið. Þar fór þó betur en á horfðist. Sama má segja um óhapp sem varð um kvöldmatarleytið í gær. Þá kastaðist 7 ára barn í framrúðu bíls. Þrátt fyrir það slappið barnið við teljandi meiðsli en það var ekki í bílbelti.

Þá stöðvaði lögreglan liðlega þrítugan ökumann sem virtist mjög annars hugar. Hann fór öfuga leið í hringtorgi og talaði jafnframt í síma án þess að vera með handfrjálsan búnað. Aksturslag af þessu tagi býður hættunni heim enda þýðir ekkert að vera utangátta í umferðinni.