25 Mars 2008 12:00

Brot 16 ökumanna voru mynduð á Hvannavöllum í Hafnarfirði í dag. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Hvannavelli í norðurátt, að Kvistavöllum. Á einni klukkustund, eftir hádegi,  fór 31 ökutæki þessa akstursleið og því ók meirihluti ökumanna, eða 52%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var tæplega 49 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði. Sjö óku á 50 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 68.

Eftirlit lögreglunnar á Hvannavöllum er hluti af sérstöku umferðar- og hraðaeftirliti í og við íbúðargötur í umdæminu en unnið er eftir ábendingum frá starfsmönnum svæðisstöðva lögreglunnar. Á Hvannavöllum var staðsett ómerkt lögreglubifreið sem er búin myndavélabúnaði. Reynslan hefur sýnt að notkun slíks búnaðar gefur gagnlegar upplýsingar um ástand umferðarmála og auðveldar leit að lausnum þar sem þeirra er þörf.