23 Janúar 2009 12:00

Brot 123 ökumanna voru mynduð á Kringlumýrarbraut í dag. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Kringlumýrarbraut í suðurátt, við Sigtún. Á einni klukkustund, fyrir hádegi,  fóru 528 ökutæki þessa akstursleið og því óku margir ökumenn, eða 23%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var rúmlega 74 km/klst en þarna er 60 km hámarkshraði. Tuttugu og einn ók á 80 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 93.  

Þess má geta að skammt undan eru gatnamót Kringlumýrarbrautar, Suðurlandsbrautar og Laugavegs. Umrædd gatnamót eru þau slysahæstu á öllu höfuðborgarsvæðinu, líkt og kynnt var sl. haust en um það má lesa með því að smella hér. Ljóst er að ökumenn sem eiga leið þarna um þurfa að hægja á sér.