16 Desember 2009 12:00

Brot 70 ökumanna voru mynduð á Reykjanesbraut í Hafnarfirði í dag. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Reykjanesbraut í norðurátt, sunnan Straumsvíkur. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 396 ökutæki þessa akstursleið og því ók tæplega fimmtungur ökumanna, eða 18%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 104 km/klst en þarna er 90 km hámarkshraði. Sex óku á 110 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 127.

Niðurstaðan í dag er ámóta og kom fram við síðustu hraðamælingu á þessum sama stað í síðustu viku og ljóst að brotahlutfallið er óásættanlegt. Lögreglan mun því auka sérstaklega eftirlit með ökumönnum á þessum hluta Reykjanesbrautar. Eins og gefur að skilja er hraðakstur hættulegur, jafnt á Reykjanesbraut sem annars staðar, en á þessum tiltekna stað vill oft myndast ísing fyrirvaralaust og áríðandi að ökumenn hafi það ávallt hugfast.