7 Desember 2010 12:00

Brot 150 ökumanna voru mynduð á Sæbraut í Reykjavík í gær. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Sæbraut í norðurátt, að Súðarvogi. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 727 ökutæki þessa akstursleið og því ók um fimmtungur ökumanna, eða 21%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 74 km/klst en þarna er 60 km hámarkshraði. Sautján óku á 80 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 92. 

Á umræddum vegarkafla hefur verið nokkuð um umferðaróhöpp og þannig var vöktun lögreglunnar tilkomin. Hún mun jafnframt verða við hraðamælingar á fleiri slíkum stöðum á næstunni. Þess má geta að við hraðamælingar á nákvæmlega sama stað á Sæbraut fyrir tæpum þremur vikum var brotahlutfallið 26%.