16 Október 2009 12:00
Rúmlega fimmtíu ökumenn voru staðnir að hraðakstri á Suðurgötu í Reykjavík í gær. Sex voru sviptir á staðnum en hinir sömu óku á vel yfir 60 km hraða en þarna er 30 km hámarkshraði. Þess má geta að sá sem hraðast ók mældist á 88. Lögreglan var einnig við umferðareftirlit á Suðurgötu í fyrradag og þá voru sömuleiðis fjölmargir sem óku of hratt og voru líka nokkrir sviptir ökuleyfi vegna þessa. Lögreglan hefur áður fylgst með hraðakstri á þessum stað en ástandið hefur sjaldan verið eins slæmt. Eftirlit lögreglunnar í gær og fyrradag var ennfremur tilkomið vegna íbúa við götuna en þeir hafa kvartað undan hraðakstri. Samkvæmt fyrrgreindum niðurstöðum hafa íbúarnir greinilega lög að mæla. Hinir brotlegu báru við ýmsum afsökunum en þeim ætti samt að vera ljóst að leyfður hámarkshraði er 30 km og er það vel auglýst eins og sést á meðfylgjandi mynd. Hún er tekin á gatnamótum Suðurgötu og Skothúsvegar en fylgst var með ökutækjum sem var ekið í norðurátt, að Vonarstræti.