21 Mars 2007 12:00

Nokkuð bar á hraðakstri á höfuðborgarsvæðinu í gær en ökumenn voru stöðvaðir víðsvegar í umdæminu. Sýnu verst var ástandið í Arnarbakka í Breiðholti en þar fer fjöldi barna um á hverjum degi. Lögreglan hefur ítrekað tekið ökumenn fyrir hraðakstur í Arnarbakka og svo var einnig í gær. Þá óku nokkrir á rúmlega 60 km hraða en leyfður hámarkshraði á þessum stað er 30. Hinir sömu verða sviptir ökuleyfi í 1-2 mánuði og fá sekt að auki. Ökuhraði á flestum stofnbrautum var skikkanlegur en alls voru 39 ökumenn teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu. Sex þeirra óku á yfir 100 km hraða.

Tuttugu og fjögur umferðaróhöpp voru tilkynnt á síðasta sólarhring en það er minna en oft áður. Í fjórum tilvikum var fólk flutt á slysadeild. Þrír voru teknir fyrir ölvunarakstur og jafnmargir fyrir að aka gegn rauðu ljósi. Fimm voru stöðvaðir fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu og þá voru skráningarnúmer tekin af fimm ökutækjum sem öll voru ótryggð.