12 September 2006 12:00

Lögreglan í Reykjavík hefur haldið uppi töluverðu umferðareftirliti við grunnskóla borgarinnar frá því að þeir tóku til starfa eftir sumarleyfi. Og það hefur sýnt sig að full þörf er á. Sama má segja um margar íbúðargötur en hraðinn á þessum stöðum er alltof mikill.

Þetta kom berlega í ljós síðast í gær. Lögreglumenn á bifhjólum voru þá við radarmælingar í Arnarbakka í Breiðholti. Þar er mikil umferð og ekki síst gangandi vegfarenda en þarna fer hópur skólabarna um á hverjum degi. Ekki virtust ökumenn taka neitt sérstakt tillit til þess því tíu voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur. Nær allir þeirra, eða níu, óku á meira en tvöföldum leyfilegum hámarkshraða sem er 30 km. Hinir sömu eiga nú yfir höfði sér ökuleyfissviptingu og fjársekt að auki.

Þessar tölur um hraðakstur eru vissulega sláandi en því miður er þetta vandamál til staðar í nær öllum hverfum borgarinnar. Því eru það eindregin tilmæli frá lögreglunni að fólk hugi nú enn betur að akstrinum og flýti sér hægt.