17 Apríl 2007 12:00
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu gekk ágætlega fyrir sig í gær þótt 27 umferðaróhöpp væru tilkynnt til lögreglunnar. Þau voru nær öll minniháttar en mestu máli skiptir að ekki er vitað um nein slys á fólki. Lítið bar á hraðakstri en þó eiga þrír ökumenn, tvær konur og einn karlmaður, ökuleyfissviptingu yfir höfði sér. Ökumennirnir voru allir staðnir að hraðakstri í götum í Breiðholti þar sem leyfður hámarkshraði er 30 en bílar þeirra allra mældust á meira en 60 km/klst.
Í gær og nótt voru tveir ökumenn teknir fyrir ölvunarakstur og einn fyrir að aka undir áhrifum lyfja. Þetta voru tveir karlmenn og ein kona. Þá stöðvuðu lögreglumenn för nítján ára pilts á Miklubraut í gærkvöld en sá ók bíl þrátt fyrir að hafa aldrei öðlast ökuréttindi. Að auki voru skráningarnúmer tekin af en bíllinn, sem er nokkuð kominn til ára sinna, var síðast færður til skoðunar árið 2002. Mikið ber á því að eigendur ökutækja hirða ekki um að færa þau til skoðunar þótt sjaldnast sé um að ræða ámóta kæruleysi og nefnt var hér að framan.