18 Nóvember 2008 12:00

Brot 197 ökumanna voru mynduð í Hvalfjarðargöngum á einni viku (10. – 17. nóvember) eða á rúmlega 169 klukkustundum. Vöktuð voru 15.866 ökutæki og því ók lítill hluti ökumanna, eða 1,2%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 84 km/klst en þarna er 70 km hámarkshraði. Fimmtán óku á 90 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 99.

Ef vöktuninni er skipt niður kemur í ljós að brotahlutfallið er eilítið lægra fyrrihluta tímabilsins í samanburði við þann seinni. Þ.e. hlutfallslega færri óku of hratt eða yfir afskiptahraða frá mánudegi til fimmtudags. Meðalhraði hinna brotlegu var sömuleiðis örlítið lægri þessa sömu daga. Í báðum tilvikum er munurinn þó lítilsháttar á fyrri og seinnihluta tímabilsins.