3 Janúar 2011 12:00

Brot 7 ökumanna voru mynduð í Hvalfjarðargöngum á fimmtudaginn en fylgst var með ökutækjum sem var ekið í norðurátt. Á einni klukkustund, um hádegisbil, fóru 148 ökutæki þessa akstursleið og því óku nokkrir ökumenn, eða 5%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 82 km/klst en þarna er 70 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 87.

Undanfarin misseri hefur brotahlutfallið í Hvalfjarðargöngum jafnan verið 1% og því er þessi niðurstaða eilítil vonbrigði. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun að sjálfsögðu fylgjast áfram með umferð í Hvalfjarðargöngum og verður eftirlitið þar aukið ef eitthvað er. Á þessum stað, sem öðrum, þarf að tryggja öryggi vegfarenda og liður í því er einmitt að draga úr hraðakstri.