5 Október 2007 12:00

Hundrað þrjátíu og einn ökumaður var staðinn að hraðakstri í Hvalfjarðargöngum frá mánudegi til föstudags í þessari viku. Meðalhraði hinna brotlega var tæplega 83 km/klst en leyfður hámarkshraði í göngunum er 70. Fáir voru á áberandi miklum hraða en sá sem hraðast ók mældist á 100 km hraða. Almennt virðist eilítið hafa dregið úr hraðakstri á þessum stað sé tekið mið af vöktun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu undanfarnar vikur. Vonandi mun sú þróun halda áfram en því verður heldur ekki neitað að endrum og sinnum fara þarna um ökumenn sem eru sannarlega á ofsahraða. Óskandi væri að þau tilvik yrðu alveg úr sögunni.